Körfubolti

Öqvist: Vil halda Jakobi og Hlyni hjá Sundsvall

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Peter Öqvist var kynntur til sögunnar sem landsliðsþjálfari Íslands í körfuknattleik í gær. Öqvist þjálfar Sundsvall-drekana í Svíþjóð en liðið varð sænskur meistari á dögunum. Með liðinu spila þeir Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson.

Blaðamaður Vísis bað Öqvist um að meta frammistöðu þeirra í Svíþjóð.

„Þeir höfðu mikil áhrif á lið okkar og stór ástæða þess hve vel okkur gekk. Jakob hefur verið með okkur í tvö ár og Hlynur eitt. Þeir eru leikmenn í hæsta gæðaflokki miðað við frammistöðu þeirra að undanförnu í Svíþjóð. Úrslitin tala sínu máli."

„Hlynur var á meðal hæstu manna í fráköstum og töfræði hans lítur mjög vel út. Leikur hans í heild og leiðtogahæfileikar hans hafa nýst félagi mínu mjög vel. Frammistaða Jakobs hefur verið mjög stöðug og í háum gæðaflokki allt tímabilið. Hann er einn allra besti leikstjórnandi deildarinnar."

Jakob er samningsbundinn Sundsvall en hefur sagst í fjölmiðlum hafa áhuga á að spila í sterkari deild. Blaðamaður gaf í skyn hvort Öqvist myndi ekki nýta sér stöðu sína í sumar til þess að hafa auga með Jakobi. Sjá til þess að hann yrði um kyrrt.

„Nei, það virkar ekki þannig. Hlutverk mitt hjá Sundsvall er að vinna með leikmönnunum. Allar viðræður fara fram milli umboðsmanna og yfirmanna íþróttamála og stjórnarinnar. Auðvitað vil ég halda bæði Jakobi og Hlyni en þetta snýst um viðskipti. Ef þeir fá starf í sterkari deild þá eru það bara viðskipti.

Leikirnir í Norðurlandamótinu fara fram á heimavelli Sundsvall-drekana. Ætli það geti nýst íslenska liðinu?

„Já, þetta er heimavöllur okkar þriggja í íslenska liðinu og það eru bara tveir fyrrverandi leikmenn Sundsvall í sænska liðinu. Hugsanlega nýtist það okkur," segir Öqvist.

Hægt er að horfa á viðtalið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×