Fótbolti

Arnar Grétarsson segir AEK ekki hafa svikið samning við Blika

Ásgeir Erlendsson skrifar
Arnar Grétarsson er uppalinn Bliki og spilaði yfir 150 leiki fyrir félagið
Arnar Grétarsson er uppalinn Bliki og spilaði yfir 150 leiki fyrir félagið Mynd/Vilhelm
Arnar Grétarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu, segir það ekki rétt að gríska liðið hafi svikið samkomulag þess efnis að Elfar Freyr Helgason myndi fá að spila leikina gegn Rosenborg í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Þetta kom fram í hádegisfréttum á Bylgjunni.

Elfar Freyr hélt í vikunni til Grikklands í læknisskoðun og vildu Blikar að hann myndi snúa til Noregs að því búnu til þess að spila leikinn gegn Rosenborg. Af því verður ekki og segir Arnar Grétarsson að aldrei hafi verið samið um slíkt. Ef Elfar myndi leika með Blikum í Meistaradeildinni gæti hann ekki spila með gríska liðinu í Evrópukeppninni í vetur.

„Það var aldrei eitthvað samþykki milli félaganna að leikmaðurinn kæmi og spilaði þessa leiki. Ég sagði frá fyrst degi að ég væri að kaupa leikmann til þess að taka þátt í fyrstu æfingu. Blikarnir sögðu að vísu að þeir vildu að hann myndi spila þessa leiki. Svo héldu viðræður áfram. Blikarnir minntust aldrei á þetta. Þetta var aldrei sett inn í samning,“ sagði Arnar Grétarsson.

„Svo var samningurinn samþykktur og ég geri bara ráð fyrir því að leikurinn komi út og spili. Svo var búið að finna málamiðlun að hann myndi spila þennan leik í Noregi svo framarlega sem hann gæti spilað alla leiki í Evrópukeppni með okkur. Svo kemur það í ljós að ef hann spilar gegn Rosenborg þá getur hann ekki spilað play-offs leikina hjá okkur.“

Einnig segir Arnar það vera mikla áhættu fyrir Elfar Frey að spila leikina því ef leikmaðurinn meiddist í leikjunum með Blikum væri samningurinn við gríska liðið í hættu.

Breiðablik mætir Rosenborg í kvöld í fyrri leik liðanna í Þrándheimi en seinni leikurinn fer fram hér á landi í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×