Fótbolti

Sölvi Geir: Menn urðu stressaðir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sölvi Geir og félagar fagna meistaratitlinum á síðustu leiktíð.
Sölvi Geir og félagar fagna meistaratitlinum á síðustu leiktíð. Nordic Photos/Getty Images
Sölvi Geir Ottesen var hetja FC Kaupmannahafnar í 3. umferð í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi. Sölvi skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri á Shamrock Rovers en reiknað var með því að Kaupmannahafnarliðið færi létt með írsku meistarana.

Í umfjöllun sporten.dk kemur fram að í liði Shamrock hafi verið verkamenn, handverksmenn og nemendur. Sölvi var ekki ánægður með frammistöðu danska liðsins í gær.

„Okkur gekk illa að fylgja þeirri taktík sem lagt var upp með og það má ekki gerast. Það var okkur sjálfum að kenna því við töpuðum allt of mörgum boltum,“ sagði Sölvi Geir.

„Samspil okkar gekk illa og við þurftum að elta boltann allt of mikið. Það var órói í leik okkar vegna þess hve oft við töpuðum boltanum og menn urðu stressaðir,“ bætti Sölvi Geir við.

Ragnar Sigurðsson byrjaði leikinn á varmannabekknum en spilaði síðari hálfleikinn.

Sölvi Geir hefur verið á skotskónum að undanförnu með dönsku meisturunum. Hann skoraði bæði mörkin í 2-2 jafntefli gegn OB frá Óðinsvéum um helgina og svo sigurmarkið í gær.

Sölvi Geir skoraði markið dýrmæta sem tryggði FCK sæti í riðlakeppni Meistaradeildar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×