Körfubolti

Bronsið á NM í höfn eftir 19 stiga sigur á Norðmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson voru stigahæstir á móti Norðmönnum.
Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson voru stigahæstir á móti Norðmönnum. Mynd/Hag
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tryggði sér bronsið á Norðurlandamótinu í Sundsvall með því að vinna 19 stiga sigur á Norðmönnum, 80-61, í lokaleik sínum í dag. Íslenska liðið endaði því mótið á tveimur sigurleikjum eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum á móti Finnum og Svíum.

Þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum Norðurlandamótum sem íslenska liðið nær þriðja sætinu. Liðið náði líka bronsinu 2000 og 2002 en hafði endað í 4. sæti á NM 2006. Finnar urðu Norðurlandameistarar með miklum yfirburðum en þeir unnu úrslitaleikinn á móti Svíum með 22 stiga mun.

Hlynur Bæringsson fór á kostum í leiknum á móti Norðmönnum og var með 22 stig og 13 fráköst. Logi Gunnarsson fylgdi eftir góðum leik á móti Dönum með því að skora 17 stig og Jakob Örn Sigurðarson skoraði 16 stig.

Norðmenn voru fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 14-18, en íslenska liðið tók völdin í öðrum leikhluta sem liðið vann með sextán stigum, 23-7, og var því 37-25 yfir í hálfleik. Logi Gunnarsson skoraði 12 stig í fyrri hálfleiknum og Hlynur Bæringsson var með tvennu í hálfleiknum, 11 stig og 10 fráköst.

Íslenska liðið leit ekki til baka eftir þetta. Liðið vann þriðja leikhlutann 21-14 og var því komið með 19 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann. Íslenska liðið vann leikinn að lokum með 19 stigum, 80-61.

Stig Íslands í leiknum:

Hlynur Bæringsson 22 (13 fráköst)

Logi Gunnarsson 17

Jakob Örn Sigurðarson 16

Pavel Ermolinskij 9 (9 fráköst og 6 stoðsendingar)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×