Mótshaldarar á opna bandaríska meistaramótinu í tennis hafa ákveðið að úrslitaleikirnir í einliðaleik karla og kvenna fari fram degi síðar en áætlað var.
Fresta varð mörgum viðureignum í vikunni vegna veðurs en það hefur rignt mikið í New York síðustu daga.
Úrslitaleikurinn í kvennaflokki fer fram á sunnudaginn en karlarnir spila til úrslita á mánudaginn.
16-manna úrslit karla kláruðust fyrst í dag sem og fjórðungsúrslit kvenna. Það var því naumur tími til stefnu en venjulega fá leikmenn einn frídag á milli viðureigna.
Rafael Nadal var einn þeirra sem hafði sagt það algjöra firru að láta þá sem fara alla leið í úrslitin spila fjóra daga í röð, eins og hefði þurft að gera til að klára mótið á þeim degi sem áætlað var.
Fjórðungsúrslitin í karlaflokki klárast á morgun en þá fá konurnar frí. Undanúrslitin fara svo fram í báðum flokkum á laugardaginn.
Í kvöld tryggði hin danska Caroline Wozniacki sér sæti í undanúrslitum þar sem hún mun mæta Serenu Williams. Wozniacki er efsta kona heimslistans en Williams er að jafna sig eftir langa fjarveru vegna meiðsla og veikinda.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Angelique Kerber frá Þýskalandi og Samantha Stosur frá Ástralíu.
US Open klárast á mánudaginn
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
