Þorlákur Árnason, þjálfari Stjörnunnar, sá sínar stelpur enda Íslandsmótið með stæl og vinna 5-0 sigur á Breiðabliki í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í dag. Stjörnustelpur fengu Íslandsbikarinn afhentan í leikslok.
„Við vorum frábærar í dag og þetta voru mjög miklir yfirburðir. Við hefðum getað skorað tíu til fimmtán mörk í þessum leik," sagði Þorlákur Árnason í viðtali á Sporttv í leikslok.
Stjarnan var búið að vinna Íslandsbikarinn en var ekkert að slaka á í þessum leik. Liðið endaði því tímabilið á því að vinna fimmtán síðustu deildarleikina sína.
„Það er samkeppni um stöður í liðinu og svo vildum við ná þessu stigameti. það vilja líka allar í liðinu standa sig og spila góðan fótbolta og það gekk eftir í dag," sagði Þorlákur.
„Þetta er búið að vera æðislegt í sumar. Við vinnum 17 leiki af 18 í sumar og erum með langbesta liðið," sagði Þorlákur að lokum.
