Körfubolti

Úrslitaleikur Lengjubikars kvenna í Dalhúsum á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir.
Pálína Gunnlaugsdóttir. Mynd/Stefán
Keflavík og Haukar mætast í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í ár en riðlakeppninni lauk í gærkvöldi. Keflavík hafði betur í baráttunni við KR um efsta sætið í sínum riðli en Haukar unnu alla leikina í sínum riðli örugglega.

Keflavík er komið í tíunda sinn í úrslitaleik fyirrtækjabikars kvenna en Keflavíkur hefur aðeins misst af tveimur úrslitaleikjum í sögu keppninnar, 2006 og 2009. Haukar munu þarna spila sinn fjórða úrslitaleik í þessari keppni á sex árum. Úrslitaleikur liðanna fer fram í Dalhúsum, heimavelli Fjölnis, á sunnudaginn kemur og hefst hann klukkan 15.00.

Þetta er í þriðja sinn sem þessi lið mætast í úrslitaleik fyrirtækjabikars kvenna en Haukar unnu 77-63 sigur á Keflavík árið 2005 en Keflavíkurstúlkur hefndu með því að vinna 95-80 sigur á Haukum árið 2007.

Pálína Gunnlaugsdóttir, núverandi leikmaður Keflavíkur, var í sigurliði í báðum leikjunum en hún hefur unnið fyrirtækjabikar kvenna fimm sinnum á síðustu sex árum og skoraði meðal annars 26 stig á 28 mínútum í úrslitaleiknum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×