Körfubolti

Keflavík og Haukar mætast í úrslitum Lengjubikars kvenna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir í leik með Keflavík.
Pálína Gunnlaugsdóttir í leik með Keflavík. Mynd/Vilhelm
Riðlakeppni Lengjubikarkeppni kvenna í körfubolta lauk í kvöld með þremur leikjum. Eftir leikina er ljóst að það verða Keflavík og Haukar sem mætast í úrslitaleiknum um helgina.

Keflavík vann sigur á KR, 63-50, og tryggði sér þar með sigur í A-riðli. Jaleesa Butler fór mikinn í liði Keflavíkur en hún skoraði sautján stig og tók sextán fráköst. Hjá KR skoruðu Margrét Kara Sturludóttir og Reyana Colson tíu stig hvor.

Bæði Keflavík og KR voru með fullt hús stiga fyrir leik liðanna í kvöld og leikurinn því hreinn úrsltialeikur um toppsæti riðilsins. Snæfell fékk tvö stig í riðlinum en Fjölnir ekkert.

Í B-riðli fóru fram tveir leikir. Haukar unnu Val örugglega, 85-65, en Jence Ann Rhoads var frábær í leiknum með 31 stig, átta fráköst og sex stoðsendingar fyrir Hauka. Íris Sverrisdóttir kom næst með sautján stig en María Ben Erlingsdóttir var stigahæst hjá Val með 21 stig.

Þá vann Hamar nauman sigur á Njarðvík, 79-78. Lele Hardy skoraði 23 stig fyrir Njarðvík en Hannah Tuomi 25 stig fyrir Hamar.

Haukar unnu alla fjóra leiki sína í B-riðli og eru því öruggir sigurvegarar. Valur, Njarðvík og Hamar fengu öll fjögur stig en Stjarnan tapaði öllum sínum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×