Ísland mætir Slóvakíu í Ólafssal í Hafnarfirði í kvöld og er um að ræða fyrsta landsleik Íslands í tólf mánuði. Danielle fékk ríkisborgararétt hér á landi í desember í fyrra og hefur því beðið óþreyjufull.
„Ég fékk ríkisborgararéttinn í desember og það var augljóslega enginn landsleikjagluggi í febrúar svo þetta hefur verið tíu mánaða bið eftir þessu tækifæri,“ segir Danielle.
Eftir að hin bandaríska Danielle fékk ríkisborgararéttinn bauðst henni tækifæri að spila á meginlandinu, enda telst hún í dag sem evrópskur leikmaður, sem breytti stöðu hennar gagnvart reglum um bandaríska leikmenn. Hún flutti búferlum til Sviss og spilar með liði Fribourg.
„Lífið er gott. Deildin er sterk og það að spila í Evrópukeppni hefur verið ný áskorun. Þetta er allt annað stig körfubolta en þess vegna er ég líka spennt að fá þetta tækifæri, að komast á enn eitt nýja stigið í körfuboltanum,“ segir Danielle sem segir hins vegar gott að komast heim til Íslands.
„Auðvitað. Þetta er heimalandið. Ég er búin að vera hérna í nokkra daga og er spennt að geta eytt heilli viku hérna,“ segir Danielle.
Hún er þá elsti nýliðinn í ungum og óreyndum íslenskum landsliðshópi.
„Frumraun fyrir landsliðið, þrítug. Það segja mér allir að þrátt fyrir aldurinn sé ég nýliði og að aldurinn breyti engu um það. Ég er elsti nýliðinn en það er allt í fína,“ segir Danielle.
Leikur Íslands og Slóvakíu hefst klukkan 19:30 og verður lýst beint á Vísi.