Unglingastarf Barcelona hefur skilað mörgum frábærum leikmönnum á síðustu árum eða heimsklassafótboltamönnum eins og Lionel Messi, Cesc Fabregas, Andrés Iniesta og Xavi Hernández svo einhverjir séu nefndir.
Börsungar ætla ekkert að gefa eftir í umgjörð sinni í kringum framtíðarfótboltamenn félagsins en unglingastarf félagsins fer fram á La Masia æfingasvæðinu sem er nálægt Camp Nou leikvanginum í Barcelona.
Forráðamenn Barcelona hafa nú ráðið stjörnukokkinn Ferran Adria til að taka matseðilinn á La Masia í gegn. Nýja slagorðið í starfinu eru "Við erum það sem við gerum og við erum það sem við borðum."
Ferran Adria var mjög virtur kokkur á Katalóníu-svæðinu og það var setið um borðin á El Bulli veitingarstaðnum þegar hann var yfirkokkur þar. Adria þótti nýstárlegur í réttum sínum en mun fá það verkefni að elda hollan og góðan mat fyrir fótboltastrákana í Barcelona.
