Emil Hallfreðsson er sjóðheitur með liði sínu, Hellas Verona í ítölsku B-deildinni, um þessar mundir. Í dag skoraði hann í sínum þriðja deildarleik í röð en Verona vann þá 2-1 sigur á Cittadella á útivelli.
Emil skoraði sigurmark leiksins strax á 22. mínútu með hnitmiðuðu vinstrifótarskoti en Cittadella hafði komist yfir með marki úr vítaspyrnu á 13. mínútu.
Hellas Verona jafnaði metin aðeins fjórum mínútum síðar áður en Emil skoraði sitt mark. Reyndist það sigurmarkið sem fyrr segir.
Alls hefur Emil skorað fimm mörk í þrettán leikjum á tímabilinu en hann var sem fyrr í byrjunarliðinu eins og í öllum öðrum leikjum liðsins síðan leiktíðin hófst.
Verona komst með sigrinum upp í ellfta sæti deildarinnar en þetta var fyrsti sigur liðsins síðan 24. september. Liðið er með sextán stig, þrettán stigum á eftir toppliði Torino.

