Sigurmark Dóru Maríu kom eftir fyrirgjöf frá Fanndísi Friðriksdóttur og skalla Margrétar Láru Viðarsdóttur sem var varinn.
Íslensku stelpurnar voru búnar að bíða lengi eftir þessu marki því liðið skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik í 3-1 sigri á Noregi en hafði síðan ekki skorað í rúma fjóra hálfleiki eða í 216 mínútur þegar Dóra María skoraði þetta mikilvæga mark.
Athygli vekur að Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, notaði Eddu Garðarsdóttur ekkert í þessum leik í dag en hún var kominn aftur inn í hópinn eftir meiðsli. Sigurður Ragnar skipti þeim Dóru Maríu, Dagnýju Brynjarsdóttur og Guðnýju Björk Óðinsdóttir inn en Edda sat allan tímann á bekknum.
Íslensku stelpurnar hafa nú náð í tíu stig af tólf mögulegum í riðlinum en þær mæta síðan Norður-Írum í Belfast á miðvikudaginn kemur.
Umfjöllun um leikinn af heimasíðu KSÍ:

Fyrri hálfleikur fór rólega af stað en íslenska liðið tók þó fljótt yfirhöndina og réð ferðinni mestan hluta hálfleiksins. Færin sem sköpuðust voru ekki mörg og Margrét Lára komst næst því á 34. mínútu en varnarmenn Ungverja komust í veg fyrir skotið. Undir lok hálfleiksins sóttu heimastúlkur í sig veðrið og þurfti Þóra að taka einu sinni á stóra sínum til þess að koma í veg fyrir að Ungverjar kæmust yfir.
Þóra var aftur í sviðsljósinu í byrjun seinni hálfleiks þegar hún bjargaði glæsilega eftir að sóknarmaður Ungverja og Þróttar, Fanny Vago, komst ein inn fyrir vörn Íslands.
Seinni hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu og hlaup nokkur harka í leikinn. Okkar stelpur fengu að líta gula spjaldið í þrígang í seinni hálfleiknum hjá þýska dómaranum enda ekkert gefið eftir. Baráttan kom nokkuð niður á flæði í sóknar leiknum og sköpuðu stelpurnar ekki mikið af færum.
Það var hinsvegar Dóra María Lárusdóttir sem braut ísinn á 68. mínútu eftir mikinn atgang í teignum. Markvörður Ungverja varði skalla frá Margréti Láru en Dóra María kom boltanum yfir línuna. Það reyndist vera eina mark leiksins og gátu stelpurnar fagnað stigunum þremur í leikslok.
Í heilt yfir var leikurinn ekkert sérstaklega leikinn af hálfu stelpnanna en ungverska liðið veitti þeim svo sannarlega verðuga mótspyrnu. Stigin þrjú hinsvegar dýrmæt í baráttunni um að komast í úrslitakeppni EM í Svíþjóð því þangað stefna stelpurnar.