Handbolti

Füchse Berlin upp fyrir Flensburg - Alexander meiddur?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson átti góðan leik fyrir Füchse Berlin í kvöld.
Alexander Petersson átti góðan leik fyrir Füchse Berlin í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Alexander Petersson skoraði fimm mörk þegar að lið hans, Füchse Berlin, vann góðan sigur á Flensburg á heimavelli sínum í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld, 33-30.

Þar með höfðu liðin sætaskipti í deildinni og Fücshe Berlin, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, er því í fjórða sæti eftir leikinn í kvöld. Liðið er nú með fimmtán stig, fimm stigum á eftir toppliði Kiel sem er með fullt hús stiga eftir tíu umferðir.

Alexander virtist meiðast á hné á lokamínútu leiksins og fékk meðhöndlun á hliðarlínunni á meðan leiktíminn rann út. Óvíst er hversu alvarleg meiðslin eru.

Heimamenn höfðu undirtökin lengst af í leiknum í kvöld og voru með sex maka forystu í hálfleik, 18-12, en Alexander hafði þá skorað fjögur mörk fyrir Berlínarliðið.

Það dró svo hægt og rólega saman með liðunum í seinni hálfleik og náðu gestirnir að minnka muninn í eitt mark þegar tæpar átta mínútur voru til leiksloka.

Leikmenn Flensburg freistuðu þess að spila grimman varnarleik síðustu mínúturnar, stundum með því að taka þrjá leikmenn Füchse Berlin úr umferð en án árangurs. Iker Romero var þá sérstaklega öflugur en hann skoraði tíu mörk í leiknum, þar af níu í seinni hálfleik.

Hjá Flensburg var Daninn Anders Eggert markahæstur með sjö mörk en þýska stórskyttan Holger Glandorf kom næstur með sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×