Sport

Ánægjulegur dagur fyrir íslenska fimleika - eitt gull og tvö brons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Anton
Íslenskt fimleikafólk var að gera góða hluti í dag. Gerplukonur urðu Norðurlandameistarar í hópfimleikum og íslenska kvennalandsliðið í áhaldafimleikum lenti í þriðja sæti á Norður – Evrópumótinu. Þá vann sameiginlegt lið Stjörnunnar og Ármanns einnig brons hjá blönduðu liðum á Norðurlandamótinu í hópfimleikum.

Íslenska kvennaliðið lenti í þriðja sæti á Norður – Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem fram fer í Uppasala í Svíþjóð en karlaliðið varð í fjórða sæti. Thelma Rut Hermannsdóttir var efst íslensku stúlknanna í fjölþrautarkeppninni en hún endaði í 9.sæti. Bræðurnir Róbert og Viktor Kristmannssynir voru jafnir í 7.sæti í fjölþrautarkeppni karla og Ólafur Garðar Gunnarsson varð í níunda sæti.

Eins og áður hefur komið fram á Vísi þá sýndu Gerplustelpur styrk sinn og fylgdu eftir Evrópumeistaratitlinum í fyrra með því að vinna gull í kvennaflokki á Norðurlandamótinu í hópfimleikum í Larvik í Noregi og það þrátt fyrir að Íris Mist Magnúsdóttir, aðalstjarna liðsins, hafi ekki getað verið með.

Sameiginlegt lið Stjörnunnar og Ármanns lenti síðan í þriðja sæti keppni blandaðra flokka.  Í fyrsta sæti þar var lið frá Ollerup þar sem þrjár íslenskar stúlkur voru hluti af liðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×