Skoðun

Veiðigjald og gengi

Þórólfur Matthíasson skrifar
Nýbirt samantekt Hagstofu Íslands úr reikningum sjávarútvegsfyrirtækja sýnir að svokallaður hreinn hagnaðar (sem sumir enskumælandi hagfræðingar kalla superprofit, ofurhagnað) í veiðum og vinnslu nam 45 milljörðum króna á árinu 2009. Í grein hér í blaðinu talar hagfræðingur Landssambands íslenskra útvegsmanna þessar tölur niður þó að fátt bendi til annars en að hreinn hagnaður veiða og vinnslu verði áfram mældur í milljarðatugum næsta áratuginn eða svo.

Undir lok greinar sinnar fullyrðir hagfræðingur LÍÚ að verði hluti af auðlindarentunni (ofurhagnaðinum) beint til almennings muni gengið lækka og lífskjör almennings versna. Enginn rökstuðningur er lagður fram þessari fullyrðingu til stuðnings. Það er enda eðlilegt, ég kann ekki þá hagfræði sem fær rök hagfræðings LÍÚ til að ganga upp. Rifjum upp að með álagningu veiðigjalds er verið að veita tekjum af auðlindinni frá handhöfum veiðiheimilda til eiganda auðlindarinnar, frá eigendum útgerðarfyrirtækja til almennings. Þessu fylgir óhjákvæmilega að ráðstöfunartekjur útgerðarmanna minnka og að tekjur og lífskjör almennings batna. Tekjutilfærslum af þessu tagi kunna að fylgja áhrif á gengi og innlent verðlag, en þá því aðeins að almenningur ráðstafi tekjum með verulega öðrum hætti en útgerðarmenn. Til dæmis er líklegt að við skilyrði frjálsra fjármagnsflutninga séu útgerðarmenn líklegri til að flytja tekjur og eignir til útlanda en almennir borgarar. Tilflutningur tekna til almennings frá útgerðarmönnum er því líklegri til að styrkja gengi en að veikja það. Þannig að veiðigjald mun styrkja lífskjör almennings úr tveimur áttum, með beinum hætti gegnum lægri tekjuskatt eða lægri virðisaukaskatt eða beinar tilfærslur og með óbeinum hætti með (smávægilegri) styrkingu á raungengi.

Fullyrðing hagfræðings LÍÚ um að álagning veiðigjalds muni veikja lífskjör almennings stenst ekki skoðun. Hitt er annað mál, og hefur aldrei verið dulið, að álagning veiðigjalds mun skerða tekjur handhafa veiðiheimilda en auka tekjur eiganda sjávarauðlindarinnar, sem er íslenskur almenningur. Skiljanlegt er að LÍÚ sé það lítt að skapi.








Skoðun

Sjá meira


×