Dagur Sigurðsson hefur gagnrýnt Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara í þýskum fjölmiðlum fyrir að nota Alexander Petersson of mikið í leikjum íslenska liðsins á HM.
Dagur er þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlin sem er í öðru sæti deildarinnar sem nú er í fríi vegna HM í Svíþjóð.
„Ég ræddi við Alexander Petersson og hann sagði mér að hann sé í slæmu ástandi og í raun búinn á því. Þrátt fyrir það spilar hann næstum alla leiki frá upphafi til enda," sagði Dagur í samtali við vefmiðilinn handball-welt.de.
Lestu hér - Alexander er að spila þjáður
„Á sama tíma hefur Ólafur Stefánsson spilað mjög lítið," bætti hann við en Guðmundur er einn þjálfari Rhein-Neckar Löwen, liðinu sem Ólafur spilar með í þýsku úrvalsdeildinni. „Svo les ég það í íslenskum fjölmiðlum að Ólafur segist vera leikfær. Það skil ég ekki og hef ég það á tilfinningunni að Guðmundur sé að hugsa um hagsmuni Löwen."
„Þetta er mér alls ekki auðvelt mál enda eru Ólafur og Guðmundur góðir vinir mínir."
Dagur segir að Alexander hafi þurft á fríi að halda í desember en að þá hafi hann verið kallaður í íslenska landsliðið.
„Þá spilaði hann næstum tvo heila leiki með íslenska landsliðinu á meðan að Ólafur spilaði næstum ekkert - þrátt fyrir að hann væri leikfær. Nú er sama staðan komin upp aftur og ég fæ Alexander aftur meiddan heim."
Lestu hér - Ólafur: Ég er ekki meiddur

Dagur segir að hann hafi vel fylgst með HM í Svíþjóð. Sex leikmenn Füchse Berlin séu að spila þar en að hann hafi einnig fylgst sérstaklega vel með íslenska landsliðinu.
„Ísland vann í riðlakeppninni alla sína fimm leiki. En það kostaði einnig mikla orku. Íslenska vörnin krefst mikils af leikmönnum og leikur liðsins fór út af sporinu. Það sá maður líka í leiknum gegn Spáni í milliriðlinum. Liðið var þá enn í sjokki," sagði Dagur en Ísland tapaði fyrir Þýskalandi í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar, heldur óvænt.
„Nú er komið að síðustu leikjunum í keppninni sem skipta í raun engu máli. Það er vissulega ekki slæmur árangur að verða í fimmta eða sjötta sæti á HM en nú er tækifæri til að deila álaginu á fleiri leikmenn."