Internazionale frá Milan komst upp í þriðja sæti ítölsku deildarinnar með 3-0 útisigri á Bari í A-deildinni í kvöld. Nýju mennirnir í liðinu skoruðu tvö fyrstu mörkin en öll mörk liðsins komu á síðustu tuttugu mínútum leiksins.
Houssine Kharja, sem kom á láni frá Genoa um síðustu helgi, kom Inter í 1-0 á 70. mínútu eftir sendingu frá Samuel Eto'o og Giampaolo Pazzini bætti við öðru marki á 90. mínútu. Pazzini kom á dögunum frá Sampdoria en hann hefur skorað þrjú mörk í tveimur fyrstu leikjunum með liðinu.
Hollendingurinn Wesley Sneijder innsiglaði síðan sigurinn í blálokin eftir sendingu frá Houssine Kharja.
Internazionale er með 41 stig eins og Lazio en AC Milan er á toppnum með 48 stig og Napoli er í öðru sæti með 43 stig. Inter á líka einn leik inni.

