Handbolti

Stella: Við eigum fullt erindi í þetta lið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stella Sigurðardóttir.
Stella Sigurðardóttir. Mynd/Anton

„Við byrjuðum alveg hræðilega í kvöld en sýndum síðan þegar leið á leikinn að við erum með ekkert verra lið en þær," sagði Stella Sigurðardóttir, leikmaður Framara, eftir leikinn í kvöld.

Framarar þurftu að sætta sig við tveggja marka tap gegn Blomberg-Lippe í 16-liða úrslitum Evrópukeppni bikarhafa. Fram var á tímabili tíu mörkum undir í leiknum en náðu með hjálp Stellu Sigurðardóttir að komast aftur inn í leikinn.

Stella átti frábæran leik í kvöld en hún skoraði níu mörk og átti fjöldann allan af stoðsendingum á samherja sína.

„Ég er nokkuð ánægð með mína frammistöðu. Ég er ekki alveg orðin heil og má til að mynda ekki spila neina vörn ennþá".

„Við bárum allt of mikla virðingu fyrir þeim í byrjun en um leið og við fórum aðeins að berja á þeim þá fundum við að þetta var alveg hægt," sagði Stella.

„Þegar við fórum að spila saman sem lið í staðin fyrir það einstaklingsframtak sem einkenndi leik okkar í byrjun þá gengu hlutirnir betur. Við ætlum að vinna leikinn á morgun og koma okkur í 8-liða úrslitin. Það sást greinilega að við eigum fullt erindi í þetta lið og með góðum stuðningi þá förum við áfram," sagði Stella nokkuð sátt eftir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×