Hollendingurinn Mark van Bommel hefur gengið til liðs við ítalska úrvalsdeildarfélagið AC Milan en þangað kemur hann á frjálsri sölu frá Bayern München.
Van Bommel fékk sig lausan frá Bayern þar sem hann hefur lítið fengið að spila en samningur hans við félagið átti að renna út í sumar.
Van Bommel var í fjögur og hálft ár á mála hjá Bayern og sagðist kveðja félagið með trega.
Hann var fyrsti fyrirliði Bayern sem var ekki þýskur en hann lék áður með Barcelona á ferli sínum auk þess sem hann á að baki 66 leiki með hollenska landsliðinu.
AC Milan er nú á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar en Bayern í fjórða sæti þýsku deildarinnar.