Lífið

Afslappaðir Eurovision-farar

Hreimur og félagar eru afslappaðir yfir Eurovision. Fréttablaðið/Anton
Hreimur og félagar eru afslappaðir yfir Eurovision. Fréttablaðið/Anton
„Ég hélt í fyrstu að þetta yrði afslappað, bara fjögurra daga ferð til Düsseldorf, en nei; þetta eru tvær vikur og nánast hver einasti dagur þéttbókaður," segir Hreimur Örn Heimisson, einn sexmenninganna sem flytja Eurovision-lagið í ár, Aftur heim.

Hreimur er pollrólegur og yfirvegaður yfir öllu umstanginu sem fylgir þátttöku í Eurovision og segir þá félaga bara taka einn dag í einu, þeir njóti þess bara að spila saman.

Söngvarinn virðurkennir að þeir séu farnir aðeins að skipuleggja, enda sé í mörg að horn að líta.

„Þórunn [Erna Clausen] er að fínpússa textann og ég held að við afhjúpum atriðið og lagið í byrjun mars. Við erum aðeins að vinna í laginu en viljum auðvitað ekki breyta því of mikið enda var það flott eins og það var," segir Hreimur, sem vill hvorki játa né neita þegar hann er spurður hvort myndband verði gert við lagið. Honum þykir það hins vegar líklegra en hitt. Hreimur, eins og Pálmi Sigurhjartarson og Matthías Matthíasson, er Eurovision-jómfrú en bæði Vignir Snær og Gunnar Ólason hafa tekið þátt í þessari sívinsælu keppni.

Hreimur bindur helst vonir við að geta spilað golf í ferðinni en hann segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um klæðaburð eða annað í þeim dúr. „Við ætlum að leyfa þessu að koma svolítið til okkar því það er fyrst og fremst gaman að hafa fengið þetta verkefni sem heldur nafni Sjonna á lofti."

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×