Lífið

Frumsýna á föstudaginn langa

Hlátur Á myndinni eru leikararnir Margrét Eymundardóttir, Gunnar Freyr Árnason, Guðrún Tómasdóttir og Halldór Sigurðsson.
Hlátur Á myndinni eru leikararnir Margrét Eymundardóttir, Gunnar Freyr Árnason, Guðrún Tómasdóttir og Halldór Sigurðsson.
Leikfélagið Peðið frumsýnir leikritið Hlátur eftir Kristin Kristjánsson, fyrrverandi formann Hins íslenska glæpafélags, á föstudaginn langa.

Leikritið gerist á hláturnámskeiði þar sem áhorfandinn fær innsýn í líf kennarans og þeirra sem námskeiðið sækja.

Hlátur vann leikritasamkeppni fyrir nokkrum árum en Kristni gafst ekki færi á að vinna nánar með verkið því hann féll frá stuttu síðar. Jón Benjamín Einarsson tók hins vegar við keflinu og þróaði verkið í samvinnu við Guðjón Sigvaldason leikstjóra.

„Ég var góðkunningi Kristins og hafði jafnframt leikstýrt þessum leikhópi áður. Mér leist það vel á þetta handrit að mér þótti þess virði að vinna það áfram," útskýrir Guðjón.

Leikhópurinn hefur æft verkið undanfarnar sex vikur og segir Guðjón æfingar hafa gengið mjög vel. Verkið verður sýnt þrisvar sinnum yfir páskahátíðina og kveðst Guðjón ekki ætla að eyða páskafríinu í fjölskylduboðum.

„Nei, við erum að sýna og skemmta öðrum þessa páskahátíð."

Sýningar fara fram á Gallerí-Bar 46 við Hverfisgötu og er miðaverð 1.300 krónur. Hægt verður að kaupa miða á staðnum.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×