„Þeir eru í gufu. Þetta er í annað sinn í dag. Ég fór reyndar með þeim í morgun. Þeir eru farnir að líta á gufubaðið sem einhvers konar heillagrip,“ segir Þorbjörg Sif Þorsteinsdóttir, eiginkona Hreims Arnar Heimissonar.
Vinir Sjonna, fulltrúar Íslands í Eurovision, hafa tekið miklu ástfóstri við gufubaðið á Radison SAS-hótelinu sínu og sækja það grimmt, fara að minnsta kosti einu sinni á dag. Þorbjörg segir ekkert skrýtið við þetta nýja áhugamál bónda síns, þeir félagar slaki einfaldlega vel á í hitanum.
Þorbjörg Sif var í góðum hópi með eiginkonum þeirra Pálma Sigurhjartarsonar, Matthíasar Matthíasarsonar, Benedikts Brynleifssonar og Vignis Snæs þegar kom að úrslitastund í Eurovision-höllinni á þriðjudagskvöld. Hún segir að þær hafi allar hoppað hæð sína af kæti og vart trúað sínum eigin augum þegar íslenski fáninn kom í ljós. „Við vorum eiginlega alveg jafn hissa og Norðmennirnir, vorum alveg hundrað prósent á því að Norðmenn færu áfram.“
Kvöldið var síðan undirlagt af gleði, fyrst var fagnað með fjölskyldu Sjonna Brink og svo farið á svokallaðan EuroClub og dansað frameftir nóttu.
„Við Hreimur vorum reyndar komin heim klukkan hálf fjögur en við heyrðum af einhverjum skríða heim um sex leytið.“ Í gærkvöldi tróðu strákarnir síðan upp í veislu hjá rússneska hópnum en Þorbjörg segir það skrýtið að vera þarna úti í Eurovision-landi án nokkurrar ábyrgðar.
„En við njótum bara lífsins, sitjum á kaffihúsum og sötrum hvítvín.“- fgg
Gufubaðið heillagripur strákanna
