Lífið

Stjörnuband Jónasar í garðveislu

Jónas Sigurðsson
Jónas Sigurðsson
„Þetta verður algjör viðhafnarútgáfa af hljómsveitinni," segir Jónas Sigurðsson tónlistarmaður, en hann kemur fram á tónleikum í Hljómskálagarðinum í kvöld ásamt Ritvélum framtíðarinnar.

Tónleikarnir eru liður í Garðveislu FTT, Félags tónskálda og textahöfunda. Félagið fagnaði aldarfjórðungsafmæli sínu árið 2008 og hafa Mezzoforte, Megas, Senuþjófarnir, Magga Stína, Hörður Torfason og Hjálmar öll sett svip sinn á Garðveislurnar upp frá því.

„Við munum spila lög af þeim tveimur plötum sem ég hef gefið út. Það verður alveg glæsilegt svið og rosalega flott hljóðkerfi," segir Jónas.

Tólf manna sveit kemur fram með honum. Þar má nefna þau Kristjönu Stefánsdóttur söngkonu, gítarleikarann Ómar Guðjónsson og Samúel Jón Samúelsson.

„Það mætti kalla þetta „all-star" band," segir Jónas og hlær. Stjörnubandið hefur æft af kappi undanfarið, en framundan er stíf dagskrá. „Við verðum á Bræðslunni um næstu helgi og á Innpúkanum þar á eftir. Við erum því bara að æfa á fullu," segir Jónas.

Auk Jónasar og Ritvélanna kemur dúettinn Song for Wendy fram í kvöld. Sveitin samanstendur af söngkonunni Dísu og danska tónlistarmanninum Mads Mouritz. Tónleikarnir hefjast kl. 21.15 og er aðgangur ókeypis. -ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×