Skoðun

Skálholt – Nýr biskup

Úr húmi aldanna rís hugsunin um Skálholt eins og myndin af frelsaranum á altarisveggnum þar, óræð, margsaga en engu að síður með áskorun fyrir ókominn tíma. Hver sem kemur þangað finnur til sín kallað: Hver ert þú förumaður og hvert ætlar þú? Hver er ákvörðunarstaður þinn? Vel væri svarað ef sagt væri: Himinn Guðs, Guðs eilífa borg.

Skálholt hefur vaxið í samtíð okkar, er eitt af því sem kallað hefur verið til leiks okkar samtíðarmanna úr örófi alda. Þar hefur risið helgidómur sem á sér tilkall í huga okkar og vonum. Er ágengur við hugsun hvers okkar sem þar höfum komið. Segir eitthvað við okkur, spyr spurninga um vegferð okkar.

Margt er það orðið sem þaðan hefur borist út yfir land og lýð, enda staðurinn í miðjum straumi Íslandssögunnar. Ísleifur settist þar að fyrstur biskupa; Gissur var þar þrennt í senn: Hirðir, konungur og víkingur; Þorlákur gaf fordæmi um sið og helgi; Marteinn kom á nýjum sið og Jón Arason stóð í móti; Vídalín talaði inn á hvert heimili gegnum postillu sína og Hannes Finnsson skrifaði hina fyrstu hagfræðiritgerð um það að landið bætti sig á aldarfjórðungi hvað sem á hefði dunið; Sigurbjörn, ég tel hann hér, talaði einnig inn á hvert heimili Íslands og minnti á hann sem var og er og kemur.

Biskupsþjónusta er fyrirferðarmikil í íslenskri sögu eins og Skálholt. Hlutverk biskupa er að halda kirkjunni saman í samtíð og sögu. Minna á það sem hefur ævarandi gildi. Það er erfitt hlutverk í samtímanum sem hefur gert allt að álitamálum og varpað öllu í efa. En eitt var það, sem stöðugt stóð og stendur alla tíð, það virki, er styrka höndin hlóð, þín hjálpin, Drottinn, blíð, kvað sr. Sigurjón í Saurbæ. Skálholt minnir á það virki, rís upp úr sögunni og náttúruhamförunum og flytur nýjum tíma nýjan boðskap.

Á sunnudaginn bætist sr. Kristján Valur Ingólfsson í röð þeirra sem hafa veitt Skálholti forstöðu. Af honum er góðs að vænta svo reyndur sem hann er í lífi og starfi kirkjunnar. Prestur við hið ysta haf, lærdómsmaður við einn virðulegasta menntabrunn álfunnar, fræðari presta og prestsefna, áður kunnur Skálholti sem rektor lýðskólans þar og sannur ármaður kirkjunnar alla tíð. Við öll sem unnum kirkju og kristni á Íslandi skulum fagna honum.

Hvernig sem okkur finnst hlutunum megi vera varið í kirkju okkar skiptir það mestu að þau sem veljast til þjónustunnar þar séu heil í áhuga sínum, að þau séu rótfest í fagnaðarerindinu um Krist og viti hvert hlutverk kirkjunnar er í samtíð sem í fortíð. Enginn getur girnst það hlutverk í dag sem leiðtogar kirkju okkar gegna nema þau hafi ást á kirkjunni, ástríðufulla ást sem sprettur af dagskipan hennar sem felst í þeirri skipan að gera allar þjóðir að lærisveinum, kenna þeim og helga nafni guðs, föður, sonar og heilags anda. Í því ljósi verður lífi mannanna lyft upp mót hugsjónum um frið og sátt í veröld okkar mannanna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×