Lífið

Ísland dregið inn í grannadeilur í Eurovision

harðar deilur Forseti Aserbaídsjan, Ilham Alijev, bindur miklar vonir við að Eurovision-keppnin verði mikil lyftistöng fyrir ímynd landsins. Hér er hann ásamt eiginkonu sinni, Mehriban Alijeva.
harðar deilur Forseti Aserbaídsjan, Ilham Alijev, bindur miklar vonir við að Eurovision-keppnin verði mikil lyftistöng fyrir ímynd landsins. Hér er hann ásamt eiginkonu sinni, Mehriban Alijeva.
Ísland hefur óvænt verið dregið inn í deilur Armena og Asera vegna Eurovision-keppninnar sem fer fram í höfuðborg Aserbaídsjans, Bakú, í maí á næsta ári. Ísland er á sumum armenskum fréttamiðlum sagt hafa dregið sig úr keppni.

Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi eldað grátt silfur og landamæri Armeníu að Aserbaídsjan eru lokuð. Fáum kemur því á óvart að þátttaka Armeníu í keppninni á næsta ári skuli hanga á bláþræði en að nafn Íslands skuli dregið inn í þessar deilur er ákaflega óvænt. Enda kom Jónatan Garðarsson, sem hefur farið fyrir íslenska hópnum undanfarin ár, af fjöllum þegar Fréttablaðið bar þetta undir hann. „Það stendur skýrt í reglum Eurovision-keppninnar að ekki megi blanda henni saman við stjórnmál eða stjórnmálaskoðanir." Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri tók í sama streng og sagði ekkert slíkt vera fyrir hendi.

Stjórnvöld í Aserbaídsjan hafa á hinn bóginn verið harðlega gagnrýnd fyrir Eurovision-undirbúning sinn, en breska blaðið Telegraph greindi frá því skömmu fyrir jól að stjórnvöld hefðu skrúfað fyrir rafmagn og gas hjá hundruðum íbúa í miðborg Bakú til að rýma fyrir byggingu nýrrar sönghallar. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa, samkvæmt frétt Telegraph, varað við ólöglegu athæfi stjórnvalda í Aserbaídsjan vegna umræddrar byggingar en forseti landsins, Ilham Alijev, bindur vonir við að Eurovision-keppnin eigi eftir bæta ímynd landsins til muna.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×