Fótbolti

Magnaður sigur hjá Arsenal gegn Barcelona - Shaktar kom á óvart

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Van Persie fagnar marki sínu í kvöld.
Van Persie fagnar marki sínu í kvöld.

Arsenal vann dramatískan sigur á Barcelona, 2-1, þegar liðin mættust á Emirates-vellinum í London í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

David Villa kom Barcelona yfir á 25. mínútu leiksins og það var fátt sem benti til þess að Arsenal myndi gera nokkuð í leiknum er liðið hrökk óvænt í gírinn.

Robin Van Persie jafnaði metin tólf mínútum fyrir leikslok. Var þá í þröngu færi í teignum en hann nýtti sér til fulls að Victor Valdes, markvörður Barcelona, skildi veðja á að Persie ætlaði að gefa boltann. Hollendingurinn skoraði því í tómt markið.

Aðeins fimm mínútum síðar átti Arsenal frábæra skyndisókn. Nasri fékk boltann á hægri vængnum, hann lagði boltann í teiginn þar sem Andrey Arshavin var mættur til þess að klára færið.

Það reyndist sigurmark leiksins og Arsenal því enn í möguleika á að komast áfram.

Í hinum leik kvöldsins í Meistaradeildinni vann úkraínska liðið, Shaktar Donetsk, óvæntan útisigur á ítalska liðinu Roma.

Lokatölur þar 2-3 en öll mörk Shaktar komu á ellefu mínútna kafla í fyrri hálfleik.

Simone Perrotta og Jeremy Menez skoruðu mörk Roma í leiknum en þeir Jadson, Douglas Costa og Luiz Adriano skoruðu mörk shaktar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×