Handbolti

Valdimar: Magnaður karakterssigur

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Valdimar Fannar Þórsson.
Valdimar Fannar Þórsson. Mynd/Arnþór

Valdimar Fannar Þórsson, leikmaður Vals, var kátur í leikslok eftir að Valsmenn tryggðu sér sæti í úrslitum Eimskipsbikarsins í handbolta eftir 33-31 sigur gegn Fram í framlengdum leik að Hlíðarenda í dag. Valdimar fór fyrir liði Vals og skoraði átta mörk.

„Þetta var hrikalega sætt og verður varla mikið betra. Við vorum að elta þá nánast allan leikinn en fengum færi á að klára leikinn í venjulegum leiktíma. Svo kom þessi þvílíki karakter í framlengingunni og þeir áttu einfaldlega ekki séns í okkur," sagði Valdimar.

Fram jafnaði leikinn þegar tíu sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og knúði fram framlengingu. Valsmenn léku á alls oddi í fyrri háfleik framlengingarinnar og náðu fjögurra marka forystu. Þeir voru hins vegar duglegir við að láta henda sér útaf í tvær mínútur og léku tveimur færri lungann úr framlengingunni.

„Ég veit ekki hvað við fengum margar brottvísanir í framlengingunni, þetta var ótrúlegt. Það hjálpaði okkur að Ingvar [Guðmundsson markvörður Vals] kom sterkur inn og tók nokkra mikilvæga bolta. Þetta var magnaður karaktersigur," segir Valdimar sem vonar að sigurinn hjálpi þeim í deildinni.

„Það er rosalega stutt á milli í þessu hjá okkur því við höfum nú afrekað það að tapa með tuttugu mörkum fyrir Fram í vetur. Við sáum það í síðustu leikjunum fyrir áramót að þegar við erum allir heilir og tókum á því þá eigum við erindi í hvaða lið sem er."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×