Handbolti

Talant Duyshebaev að taka við Hamburg?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Þýskir fjölmiðlar halda því fram að Talant Duyshebaev sé mögulega á leið í þýsku úrvalsdeildina og muni taka við meistaraliði Hamburg.

Hamburg hefur gengið illa á tímabilinu og var ákveðið skömmu eftir að deildin fór í vetrarfrí að rekja þjálfarann - Svíann Per Carlén.

Duyshebaev hefur náð góðum árangri með Atletico Madrid, sem áður hét Ciudad Real. En þýska blaðið Bild hefur eftir honum að eigandi félagsins muni ekki standa í vegi fyrir honum, vilji hann fara annað.

„Ég er búinn að segja forsetanum frá mínum áætlunum. Þetta voru mjög góð samtöl en það er þó ekkert frágengið eins og er," er haft eftir honum. „Ég væri reiðubúinn að taka við liði eins og Hamburg enda frábært lið með góðan mannskap."

Ólafur Stefánsson lék í sex ár með Ciudad Real, frá 2003 til 2009. Fyrstu tvö árin var Duyshebaev liðsfélagi hans en hann tók við starfi þjálfara árið 2005.

Duyshebaev hefur einnig verið orðaður við landsliðsþjálfarastarfið í Katar en heimsmeistarakeppnin fer fram þar í landi árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×