Vandræði Inter virðast engan endi ætla að taka en liðið gerði í kvöld 2-2 jafntefli við Catania á heimavelli eftir að hafa lent 2-0 undir.
Diego Forlan og Diego Milito skoruðu mörk Inter á síðustu 20 mínútum leiksins en Catania komst í 2-0 strax í fyrri hálfleik.
Inter hefur nú spilað sjö deildarleiki í röð án sigurs og er liðið nú í sjöunda sæti deildarinnar með 37 stig - sautján stigum á eftir toppliði AC Milan.
Claudio Ranieri tók við liðinu á miðju tímabili en miðað við núverandi gengi er óvíst hvort þriðji þjálfarinn verði ráðinn til liðsins áður en tímabilinu lýkur.
