Handbolti

Mikkel Hansen og Heidi Löke kosin besta handboltafólk í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danska stórskyttan Mikkel Hansen og norski línumaðurinn Heidi Löke voru kosin besta handboltafólk ársins 2011 af Alþjóðahandboltasambandinu en að kosningunni komu fjölmiðlamenn, handboltasérfræðingar IHF og áhugafólk sem gat kostið á heimasíðu sambandsins.

Rúmeninn Cristina Neagu og Tékkinn Filip Jicha fengu þessu verðlaun fyrir árið 2010. Þessi verðlaun hafa verið gefin frá árinu 1988.

Heidi Löke fékk 28 prósent atkvæða í kjörinu en í 2. sæti var Frakkinn Allison Pineau með 22 prósent og norski markvörðurinn Katrine Lunde Haraldsen varð síðan þriðja með 20 prósent atkvæða.

Mikkel Hansen fékk 31 prósent atkvæð í kjörinu, Filip Jicha varð í 2. sæti með 21 prósent atkvæða og Frakkarnir Nikola Karabatic og Luc Abalo fengu svo báðir 19 prósent atkvæða í boði.

Heidi Löke varð heimsmeistari með norska landsliðinu og vann alla titla með norska liðinu Larvik HK þar á meðal Meistaradeildina. Hún varð markadrottning í bæði norsku deildinni og Meistaradeildinni á síðasta tímabili en skipti síðan yfir í ungverska liðið Audi ETO Györ í haust.

Mikkel Hansen vann tvöfalt með AG kaupmannahöfn á árinu 2011 auk þess að verða í 2. sæti með danska landsliðinu á HM þar sem hann varð markakóngur keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×