Leikstjórnandinn Peyton Manning hefur ákveðið að semja við Denver Broncos. Manning hefur verið án samnings síðan hann var leystur undan samningi við Indianapolis Colts í upphafi mánaðarins.
Síðan þá hefur hann verið í viðræðum við fjölda félaga og hafa menn vestanhafs beðið spenntir eftir ákvörðun Manning.
Hann ku hafa hringt í John Elway, varaforseta Denver Broncos, í morgun og tjáð honum að hann vilji koma til Denver. Umboðsmaður Manning er því nú að ganga frá samningum við Broncos. Manning hefur einnig tjáð San Francisco og Tennessee um ákvörðun sína en bæði lið vildu næla í Manning.
Koma Manning þýðir væntanlega að tími Tim Tebow hjá Denver er á enda. Sá ungi drengur sló í gegn hjá félaginu á síðasta tímabili og átti að leiða liðið næstu ár. Allt þar til í ljóst varð að Manning væri á lausu. Denver ætlar nú að skipta honum til annars félags og því afar ólíklegt að hann verði áfram hjá Broncos.
Tebow er þegar orðaður við San Francisco, Miami og Jacksonville.
