Sport

Hlaupakona úr Grindavík fyrst í mark á Kanaríeyjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Áhorfendur klappa fyrir Christine á Kanaríeyjum.
Áhorfendur klappa fyrir Christine á Kanaríeyjum. running-twins.de
Christine Bucholtz, hlaupakona úr Grindavík, kom fyrst í mark í maraþonhlaupi kvenna í TransCranCanaria-hlaupinu á Kanaríeyjum á dögunum.

Christine hljóp á tímanum 4:20:49 klukkustundum. Hafa verður í huga að ekki er um hefðbundið maraþonhlaup að ræða heldur er hlaupið við erfiðar aðstæður í fjöllunum á Kanaríeyjum. Heildarhæðarmunur á hlaupaleiðinni er um 3400 metrar.

Vegna aðstæðna er keppendum skylt að hlaupa með alls kyns búnað öryggis síns vegna. Þar má nefna höfuðljós með aukarafhlöðu, farsíma, lágmark tveggja lítra vatnsflösku, teppi, plastglas og regnkápu.

Keppt var í þremur vegalengdum. Auk maraþonsins var keppt í 93 km hlaupi og 126 km hlaupi. Alls tóku um 1800 manns þátt í keppninni.

Christine hefur staðið sig vel í hlaupum á erlendri grundu undanfarin ár. Í október síðastliðnum hljóp hún meðal annars í 100 mílna (160 kílómetra) hlaupinu í Andalúsíu á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×