AC Milan sér fram á mikinn slag við að halda varnarmanninum Thiago Silva hjá félaginu. Barcelona er enn á eftir honum og er sagt ætla að gera nýtt tilboð í hann í sumar.
Barca gerði einnig tilboð í leikmanninn síðasta sumar en hafði ekki erindi sem erfiði. Silva kom til félagsins frá Fluminese árið 2009 og hefur slegið í gegn.
AC Milan hefur engan áhuga á að selja en veit að leikmaðurinn er eðlilega nokkuð spenntur fyrir því að spila fyrir Barcelona.
Í þeirri von að halda Silva ætlar Milan að gera Silva að fyrirliða í sumar. Með því sýnir félagið í verki hversu mikilvægur hann sé félaginu.
