Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, er í vandræðum eftir leik Real Madrid í gærkvöldi en lærisveinar hans gerðu þá 1-1 jafntefli við Villarreal og töpuðu þá dýrmætum stigum í titilbaráttunni við Barcelona. Mourinho var einn af þremur Real-mönnum sem fengu að líta rauða spjaldið en það er þó ekki rauða spjaldið sem fór mest fyrir brjóstið á spænsku þjóðinni.
Mourinho var rekinn upp í stúku fyrir að mótmæla eftir að Marcos Senna jafnaði metin á 83. mínútu leiksins en Cristiano Ronaldo kom Real Madrid í 1-0 á 62. mínútu. Mourinho lét ekki bara dómarann heyra það því hann blótaði framan í spænsku þjóðina þegar hann gekk framhjá sjónvarpsmyndavél á vellinum.
„Til helvítis með ykkur hóruungar," öskraði Jose Mourinho framan í myndavélina og ljótt orðbragð hans barst því beint inn stofu þeirra landsmanna sem voru að horfa á leikinn.
Jose Mourinho gæti átt yfir höfði sér langt bann vegna þessarar hegðunar sinnar en auk þess eru Sergio Ramos og Mesut Ozil á leið í bann fyrir rauðu spjöldin sín í gær og þá er vandræðabarnið Pepe í vandræðum fyrir að drulla yfir dómarann í leikslok.
Real Madrid hefur tapað fjórum stigum í síðustu tveimur deildarleikjum sínum og því munar aðeins sex stigum á þeim og Barcelona. Fjarvera lykilmanna og þjálfarans ættu bara að auka líkurnar á því að Real-liðið tapi fleiri stigum á næstunni.
