Fótbolti

Casillas: Real Madrid gæti misst titilinn til Barca

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iker Casillas.
Iker Casillas. Mynd/Nordic Photos/Getty
Iker Casillas, markvörður og fyrirliði Real Madrid, viðurkenndi í gær áhyggjur sínar af þróun mála í baráttunni um Spánarmeistaratitilinn. Real Madrid hefur nú aðeins fjögurra stiga forskot eftir markalaust jafntefli við Valencia í gær.

Á sama tíma og Barcelona er búið að vinna níu deildarleiki í röð hefur Real Madrid tapað sex stigum í síðustu fimm leikjum sínum. Tíu stiga forysta er því aðeins orðin fjögur stig þegar sjö umferðir eru eftir.

„Ég sé það alveg fyrir mér að Madrid gæti misst af titlinum, því Barcelona er enn með í baráttunni og við höfum ekki unnið neitt ennþá," sagði Iker Casillas við blaðamenn eftir leikinn í gærkvöldi.

„Við höfum aldrei sagt að við værum búnir að vinna titilinn. Erkifjendur okkar hafa að miklu að keppa og við getum ekki haldið að við gætum lifað á tíu stiga forskoti," sagði Casillas.

„Það bjóst enginn okkar við neikvæðum úrslitum á Bernabeu en þetta var mjög erfiður og góður leikur sem var örugglega góð skemmtun fyrir fólkið heima. Við áttum kannski fleiri færi til að skora en Valencia fékk líka sín færi," sagði Casillas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×