Handbolti

Fleiri en Ólafur að kveðja í London - Kim Andersson að hætta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kim Andersson.
Kim Andersson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sænska stórskyttan Kim Andersson, sem leikur fyrir Alfreð Gíslason hjá Kiel, tilkynnti það eftir að hafa hjálpað Svíum inn á ÓL í London, að hann myndi spila sína síðustu landsleiki á Ólympíuleikunum í London.

Ólafur Stefánsson mun væntanlega kveðja íslenska landsliðið í London en þeir félagar eru báðir örvhentar stórskyttur og lykilmenn sinna landsliða.

„Þetta er besti tíminn til að kveðja landsliðið og ég hef tekið þessa ákvörðun fyrir nokkru síðan," sagði Kim Andersson en hann er samt bara 29 ára gamall. Ólafur Stefánsson er níu árum eldri en hann.

„Ég á konu og tvö börn heima og í janúar var ég varla heima hjá mér í mánuð. Ég fórnaði tíma með fjölskyldunni til að spila með landsliðinu," sagði Andersson.

Kim Andersson kom inn í landsliðið árið 2001 og er búinn að spila hátt í 200 landsleiki fyrir Svía. Hann hefur ekki náð að vinna verðlaun á stórmóti en komst næst því þegar Svíar urðu í 4. sæti á HM í Svíþjóð 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×