Íslenska karlalandsliðið í íshokký heldur áfram að gera það gott í A-riðli 2. deildar HM en Ísland vann í kvöld sinn annan leik í röð í keppninni. Að þessu sinni vann liðið flottan sigur á liði Serba, 5-3.
Það blés ekki byrlega fyrir íslenska liðinu í upphafi leiks því Serbar voru komnir í 2-0 eftir aðeins átta mínútna leik.
Íslensku strákarnir voru snöggir að girða sig í brók, minnkuðu muninn mínútu síðar og skoruðu fimm mörk í röð. Serbarnir klóruðu í bakkann í lokin en nær komust þeir ekki.
Jón Benedikt Gíslason, Andri Mikaelsson, Emil Alengård, Pétur Maack og Birkir Árnason skoruðu mörk Íslands í leiknum.
