Fótbolti

Næsti leikur Iniesta verður hans 400. fyrir Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andres Iniesta.
Andres Iniesta. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andres Iniesta vantar nú aðeins einn leik upp á að spila 400 leiki fyrir Barcelona og tímamótaleikurinn gæti komið á móti Levante í spænsku úrvalsdeildinni á morgun. Iniesta er 27 ára gamall en lék sinn fyrsta leik fyrir Barcelona í október 2002.

Það var Louis van Gaal sem gaf Iniesta fyrsta tækifærið þegar leikmaðurinn var aðeins 17 ára gamall en hann hefur síðan orðið lykilmaður hjá Barca sem og spænska landsliðinu. Iniesta er nú kominn inn á topp tíu listann yfir flesta leiki fyrir Barcelona.

Iniesta er ekki eini núverandi leikmaður Barcelona sem er inn á topp tíu listanum því Xavi er efstur með 621 leik, Carles Puyol er í 2. sæti með 552 leiki og markvörðurinn Victor Valdes er fjórði með 452 leiki.

Iniesta hefur spilað 266 leiki í spænsku deildinni, 77 leiki í Meistaradeildinni, 40 bikarleiki, þrjá leiki í UEFA-bikarnum, tvo leiki í Súperbikar Evrópu, sex leiki í Meistarakeppninni á Spáni og loks fimm leiki í Heimsmeistarakeppni félagsliða.

Andres Iniesta hefur spilað 22 leiki í spænsku úrvalsdeildinni í vetur og Barca hefur náð í 58 af 66 stigum í boði (88 prósent). Barcelona hefur ekki tapað deildarleik með Iniesta síðan í september 2010 og er hann því búinn að leika 54 deildarleiki í röð án þess að vera í tapliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×