Fótbolti

Abidal fékk nýja lifur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eric Abidal, leikmaður Barcelona.
Eric Abidal, leikmaður Barcelona. Nordic Photos / Getty Images
Spænskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að franski varnarmaðurinn Eric Abidal hafi gengist undir aðgerð þar sem ný lifur var grædd í hann.

Abidal er á mála hjá spænska stórliðinu Barcelona sem vann 4-0 sigur á Getafe í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Pep Guardiola, stjóri Börsunga, tileinkaði Abidal sigurinn í viðtölum við fjölmiðla eftir leik.

Spænska blaðið El Mundo Deportivo fullyrti að aðgerðin hefði tekið alls níu klukkkustundir.

„Áður en ég kom hingað (á blaðamannasvæðið) fékk ég þær fréttir að aðgerðinni væri lokið. Við verðum nú að bíða í 48 klukkustundir til að sjá hvernig til tókst," sagði Guardiola í gær.

„Við verðum að vera þolinmóð. Næstu dagar munu skipta öllu máli en við höfum mikla trú á þessum sterka manni."

Abidal greindist með lifrakrabbamein í mars á síðasta ári en hann spilaði engu síður allan leikinn þegar að Barcelona vann 3-1 sigur á Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í lok maí. Var hann fyrirliði liðsins í leiknum og tók við bikarnum eftir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×