Handbolti

Alfreð og Dagur mætast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason hefur náð ótrúlegum árangri með Kiel.
Alfreð Gíslason hefur náð ótrúlegum árangri með Kiel. Nordic Photos / Getty Images
Dregið hefur verið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Kiel og Füchse Berlin munu eigast við en þriðja Íslendingaliðið, AG frá Kaupmannahöfn, mætir Atletico Madrid.

Undanúrslitin fara fram í Köln laugardaginn 26. maí og svo úrslitaleikurinn degi síðar á sama stað.

Barcelona er ríkjandi Evrópumeistari en AG sló liðið út í fjórðungsúrslitum keppninnar. Barcelona vann Ciudad Real í úrslitaleiknum í fyrra en nafni félagsins var breytt í Atletico Madrid þegar liðið flutti sig til spænsku höfuðborgarinnar.

Kiel hafði betur gegn RK Zagreb í fjórðungsúrslitunum en lærisveinar Dags Sigurðssonar komust áfram á ótrúlegan máta eftir samanlagðan sigur á Ademar Leon frá Spáni en Füchse Berlin tapaði fyrri leiknum með ellefu marka mun.

Fjölmargir Íslendingar leika með þessum liðum: Aron Pálmarsson (Kiel), Alexander Petersson (Füchse Berlin), Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason (allir AG).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×