Handbolti

Mikilvægur sigur hjá Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lærisveinar Dags Sigurðssonar hjá Füchse Berlin færðust í kvöld skrefi nær því að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Füchse Berlin vann þá sex marka sigur á Balingen á útivelli, 26-21. Liðið er nú í þriðja sæti deildarinnar og með þriggja stiga forystu á Hamburg sem er í því fjórða.

Efstu þrjú lið deildarinnar komast í Meistaradeildina og dugir því Berlínarliðinu einn sigur í síðustu tveimur deildarleikjum sínum til að gulltryggja þriðja sætið.

Liðið mætir Lemgo og Melsungen í síðustu tveimur umferðunum sínum. Næst munu þó Dagur og hans menn snúa sér að lokaúrslitunum í Meistaradeild Evrópu sem fer fram um næstu helgi.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Füchse Berlin í kvöld en staðan í hálfleik var 15-11, liðinu í vil.

Þá vann Grosswallstadt öruggan sigur á botnliði Hildesheim, 35-25. Sverre Andreas Jakobsson lék í vörn Grosswallstadt sem er í þrettánda sæti deildarinnar. Hildesheim er fyrir löngu fallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×