Spretthlauparinn Usain Bolt lenti í bílslysi rétt hjá heimili sínu fyrr í dag en samkvæmt fjölmiðlafulltrúa Bolt slasaðist hann ekki.
Bolt mun hafa verið að koma heim snemma morgun úr samkvæmi í Kingston, höfuðborg Jamaíka, þegar slysið átti sér stað en Bolt er óðum að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í London sem fram fara í sumar.
„Usain lenti í smávægilegu bílslysi rétt hjá heimili sínu en hlaut enga ákverka," sagði Carole Beckford, fjölmiðlafulltrúi spretthlauparans.
Fyrir þremur árum lenti Usain Bolt í nokkuð hörðum árekstri þegar hann ók sportbíl á miklum hraða. Í því tilviki slasaðist hlauparinn lítillega enda valt bíllinn og gjöreyðilagðist.
