KA var sekúndum frá því að landa óvæntum sigri gegn Haukum í 1. deild karla en leikið var fyrir norðan heiðar. Benis Krasniqi tryggði gestunum stig með marki í viðbótartíma.
Heimamenn, sem farið hafa rólega af stað í deildinni, komust yfir snemma leiks með marki Ævars Inga Jóhannessonar. Forystan varð tvöföld á 68. mínútu þegar Gunnar Valur Gunnarsson skoraði og útlitið gott.
Haukar, sem leika undir stjórn Ólafs Jóhannessonar fyrrverandi landsliðsþjálfa, gáfust ekki upp. Björgvin Stefánsson minnkaði muninn aðeins mínútu síðar og í viðbótartíma skoraði Benis Krasniqi sem fyrr segir og tryggði gestunum stig.
Haukar eru með stiginu komnir í 1.-3. sæti deildarinnar með 16 stig, jafnmörg og Fjölnir og Víkingur Ólfasvík sem eiga leik til góða auk þess að vera með betri markatölu.
Liðsmenn Gunnlaugs Jónssonar hjá KA lyftu sér upp um eitt sæti, í það áttunda, með níu stig.

