Rakel Hönnudóttir skoraði þrennu í 4-0 stórsigri Breiðabliks á Fylki í tíundu umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Þá skildu FH og Afturelding jöfn 2-2 í fallslag í Kaplakrika.
Rakel skoraði tvívegis í fyrri hálfleiknum og sá til þess að Kópavogsstúlkur færu með tveggja marka forystu í leikhléi. Gestirnir ætluðu greinilega ekki að láta leikinn gegn FH í síðustu umferð endurtaka sig þar sem liðið tapði 3-2 eftir að hafa leitt 2-0.
Rakel bætti við þriðja marki sínu áður en framherjinn Björk Gunnarsdóttir innsiglaði 4-0 sigur Blika. Fylkiskonur hafa nú tapað tveimur deildarleikjum í röð 4-0 auk þess sem liðið féll úr bikarnum í millitíðinni gegn Þór/KA.
Rakel hefur nú skorað átta mörk í deildinni og er næstmarkahæst ásamt Dönku Podovac hjá ÍBV. Sandra María Jessen er markahæst með tíu mörk.
Jafn í Kaplakrika
FH og Afturelding skildu jöfn 2-2 í fallslag í Kaplakrika. Carla Lee kom gestunum yfir 1-0 á 15. mínútu en Sara McFadden jafnaði skömmu fyrir leikhlé.
Lee var aftur á ferðinni á 74. mínútu en aftur var það McFadden sem jafnaði fyrir FH og tryggði liðinu eitt stig. FH-ingar hafa fengið fjögur stig úr tveimur síðustu leikjum sínum en Mosfellingar sjö úr síðustu þremur.
Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.
Rakel skoraði þrennu gegn Fylki | Jafntefli í Kaplakrika

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍBV 3-0 | Pepsi-deild kvenna
Valskonur sýndu styrk sinn á fimm mínútna kafla þegar þær gerðu út um leik sinn gegn ÍBV á Vodafone vellinum í Pepsi deild kvenna í kvöld.