Íslenski boltinn

Skoraði meira í sumar en árin þrjú á undan til samans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birta Georgsdóttir var næstmarkahæst í Bestu deild kvenna í sumar.
Birta Georgsdóttir var næstmarkahæst í Bestu deild kvenna í sumar. vísir/anton

Birta Georgsdóttir gaf verulega í fyrir framan markið á nýafstöðnu tímabili. Hún var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum hennar.

Birta skoraði eitt marka Breiðabliks í 3-2 sigri á FH í lokaumferð Bestu deildarinnar á laugardaginn.

Eftir leikinn fékk Birta viðurkenningu fyrir að hafa verið valin besti leikmaður Bestu deildarinnar af samherjum og mótherjum sínum.

Birta skoraði átján mörk í 21 leik í Bestu deildinni í sumar og var næstmarkahæsti leikmaður hennar á eftir samherja sínum hjá Breiðabliki, Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

Þetta var langbesta tímabil Birtu á ferlinum hvað markaskorun varðar. Hún hafði áður mest skorað átta mörk í Bestu deildinni, fyrir tveimur árum. 

Í fyrra skoraði hún sex mörk og þrjú mörk sumarið 2022. Birta skoraði því fleiri mörk í sumar en hún gerði samtals tímabilin 2022-24.

Fyrir þetta tímabil hafði Birta skorað 22 mörk í 105 leikjum í efstu deild en núna er hún komin með fjörutíu mörk í 126 leikjum.

Furðar sig á fjarverunni í landsliðshópnum

Þrátt fyrir góða frammistöðu í sumar var Birta ekki valin í íslenska landsliðið sem mætir Norður-Írlandi í tveimur umspilsleikjum um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar um mánaðamótin.

Nik Chamberlain, fráfarandi þjálfari Breiðabliks, skilur ekki af hverju Birta hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar.

„Hvað Birtu varðar sé ég ekki af hverju hún er ekki miðað við árið sem hún hefur átt. Hún hefur aðallega spilað sem framherji en í sumum leikjum hefur hún verið á kantinum. Hún færir sig eðlilega út á kantinn út af því sem hún getur gert,“ sagði Nik í uppgjörsþætti Bestu marka kvenna.

„Varðandi það sem þeir voru kannski að leita að sem kantmanni er ég mjög hissa að hún hafi ekki verið á lista eða hafi ekki fengið símtal, að hún sé á radaranum. Þú getur séð með unga leikmenn eins og Thelmu [Karenu Pálmadóttur] og Maríu [Catharinu Ólafsdóttur Gros]. En Birta er bara 23 ára. Ef hún væri 26-28 ára myndi ég kannski skilja þetta. Thelma hefur átt frábært ár og María hefur verið fín í Svíþjóð en Birta hefur átt ótrúlegt tímabil og er best í deildinni. Af hverju hún er ekki með er spurning sem þú verður að spyrja Steina.“

Birta er uppalin hjá Stjörnunni en kom til Breiðabliks frá FH fyrir tímabilið 2021. Hún hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Blikum og tvisvar sinnum bikarmeistari.

Birta lék 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands á sínum tíma og á einn leik að baki með U-23 ára landsliðinu.


Tengdar fréttir

„Það er virkilega gaman að troða sokkum“

Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitlinum eftir 3-2 sigur á FH í síðustu umferð Bestu deildar kvenna í dag. Berglind Björg Þorvaldsdóttir varð markadrottning Bestu deildarinnar, en hún skoraði 23 mörk í deildinni.

„Við erum skrefi framar öllum öðrum liðum í ár“

Breiðablik sigraði FH 3-2, í dramatískum leik í síðustu umferð Bestu deildar kvenna í dag. Þetta var síðasti leikur Nic Chamberlain, þjálfara Breiðabliks, í Bestu deildinni, en hann tekur við Kristianstad eftir tímabilið.

Uppgjörið: Breiðablik - FH 3-2 | Dramatískur Blikasigur

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu dramatískan sigur á FH, 3-2, í lokaumferð Bestu deildar kvenna í dag. Heiða Ragney Viðarsdóttir skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.Nánari umfjöllun á Vísi innan stundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×