Körfubolti

Hörður Axel dregur sig úr íslenska landsliðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hörður Axel í leik með Kelfavík gegn KR.
Hörður Axel í leik með Kelfavík gegn KR. Mynd / Daníel
Körfuknattleikskappinn Hörður Axel Vilhjálmsson hefur dregið sig úr íslenska landsliðshópnum. Þetta staðfesti Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands í samtali við Vísi í morgun.

Hörður Axel, sem lék með Fjölni, Njarðvík og Keflavík hér á landi áður en hann hélt í atvinnumennsku á nýjan leik fyrir síðustu leiktíð, hefur æft með íslenska liðinu í sumar í undirbúningi þess fyrir undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í ágúst og september.

Hörður Axel leikur með þýska liðinu Mitteldeutshcer BC sem vann sér þátttökurétt í efstu deild þýska körfuboltans á síðustu leiktíð. Hann heldur nú til móts við félag sitt sem er í undirbúningi fyrir komandi leiktíð og segir skilið við landsliðið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hörður Axel dregur sig úr íslenska landsliðinu. Haustið 2007 dró hann sig úr landsliðinu fyrir leiki gegn Finnlandi í B-deild Evrópukeppni. Þá hélt hann til Ítalíu til þess að taka þátt í undirbúningstímabili Treviso í stað þess að spila með landsliðinu.

Æfingahópurinn, sem taldi átján leikmenn en nú sautján, æfði í júní og mætir aftur til æfinga á sunnudaginn. Fyrsti leikur liðsins er gegn stórþjóð Serbíu þriðjudaginn 14. ágúst í Laugardalshöll.

Peter Öqvist, þjálfari landsliðsins, velur á endanum þá tólf leikmenn sem spila munu fyrir hönd Íslands í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×