Handbolti

Leik lokið: Ísland - Bretland 41-24 | Öruggt eftir erfiða fæðingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í London skrifar
Mynd/Valli
Ísland kláraði riðlakeppnina á Ólympíuleikunum í London með öruggum sigri á Bretum í Koparboxinu. Fyrri hálfleikur var þó afspyrnuslakur af hálfu strákanna okkar.

Bretar náðu að skora fimmtán mörk á íslensku vörnina í fyrri hálfleik - jafn mörg og Frakkar gerðu í síðasta leik okkar á undan. Allt annað var að sjá til liðsins í síðari hálfleik og tókst þeim þá að klára verkefnið sómasamlega.

Ísland mætir Ungverjalandi í fjórðungsúrslitum keppninnar á miðvikudaginn en þá færist keppnin úr Koparboxinu og yfir í körfuboltahöllina.

Fyrri hálfleikur var með ólíkindum og fyrsta viðvörunarbjallan hringdi eftir um átta mínútna leik. Þá misstu Bretar mann af velli í tvær mínútur en á þeim leikkafla tókst þeim engu að síður að galopna íslensku vörnina og skora tvö mörk gegn einu.

Skyndilega föttuðu gestgjafarnir að þeir ættu greiða leið í gegnum íslenska vörnina og nýttu þeir hana óspart. Steven Larsson, hægri skytta breska liðsins, fór þar fremstur í flokki og var óhræddur við að láta vaða. Árangurinn var átta mörk í fyrri hálfleik.

Eftir ellefu mínútuna leik náðu Bretar að jafna metin með sínu sjötta marki í leiknum. Þar var á ferðinni Mark Hawkins, leikmaður Aftureldingar, en hann gerði sér lítið fyrir og fór inn úr vinstra horninu, framhjá Ólafi Stefánssyni og lét vaða á nærstöng úr þröngu færi. Björgvin Páll Gústavsson kom engum vörnum við.

Markvörður Breta fór einnig á kostum en sá heitir Robert White. Hann varði oft glæsilega frá íslensku strákunum í dauðafærum, hvað eftir annað. Svipurinn á honum sagði allt sem segja þurfti - hann var hissa, mjög hissa. En svo fagnaði sem óður maður og áhorfendur tóku vel undir.

White varði átta skot í fyrri hálfleik - meira en Hreiðar Levý (6) og Björgvin Páll (1) samanlagt.

Það sem einkenndi fyrri hálfleik íslenska liðsins var hversu slakur varnarleikurinn var. Það kom á óvart enda vörnin búin að vera frábær hingað til gegn miklu, miklu sterkari liðum en Bretlandi.

Alls skoruðu Bretar fimmtán mörk í fyrri hálfleik og hverju einasta var fagnað með gríðarlegum látum áhorfenda í Koparboxinu. Strákarnir skoruðu sjálfir átján mörk og höfðu því þriggja marka forystu í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá síðari endaði. Larsson skoraði og White varði. En strákarnir voru einbeittir á svip og hafði greinilega verið sagt í búningsklefanum að vinsamlegast gyrða sig í brók.

Bretar héldu áfram að berjast og skora einstaka mark en þegar strákarnir fóru að spila eins og þeir áttu að gera frá upphafi jókst munurinn á liðunum hratt og örugglega. Það eina jákvæða við þennan leik er að leikmennirnir vissu upp á sig sökina og kláruðu leikinn almennilega, fram á síðustu sekúndu.

Allir leikmenn Íslansd komust á blað nema Sverre Jakobsson og markverðirnir. Larsson náði að skora aðeins eitt mark í seinni hálfleik og markvarsla White datt einnig niður eftir því sem leið á leikinn.

Viðtöl eru væntanleg á Vísi innan skamms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×