Handbolti

Ivano Balic búinn að finna sér lið í Makedóníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivano Balic.
Ivano Balic. Mynd/AFP
Ivano Balic, leikstjórnandi króatíska landsliðsins og einn besti handboltamaður í heimi stóran hluta síns ferils, mun spila í makedónsku deildinni, ef marka má fréttir frá heimalandi hans. Balic hefur verið án félags í sumar en allt bendir til þess að hann sé að skrifa undir við HC Metalurg Skopje en þjálfari liðsins er einmitt Lino Cervar.

Lino Cervar þjálfaði Ivano Balic hjá króatíska landsliðinu til margra ára og fékk hann einnig til að koma heim í króatísku deildina á sínum tíma. Ivano Balic hefur leikið með króatíska liðinu RK Zagreb frá 2008 en félagið hafði ekki efni á því að framlengja samninginn við leikstjórnandann snjalla.

Ivano Balic er orðinn 33 ára gamall og það vakti athygli á Ólympíuleikunum að hann var búinn að missa byrjunarliðssæti sitt í króatíska landsliðinu til Domagoj Duvnjak. Balic hjálpaði samt Króötum að vinna bronsið í London.

HC Metalurg Skopje varð makedónskur meistari á síðustu leiktíð og komst ennfremur í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×