Kylfingurinn Axel Bóasson lék stórvel á Evrópumóti áhugamanna í morgun og fór þriðja hring mótsins á fjórum höggum undir pari vallarins.
Axel er því kominn í tuttugasta sæti og er samtals á þremur höggum undir pari. Axel er þó talsvert frá efstu mönnum en þrír kylfingar eru efstir og jafnir á níu höggum undir pari vallarins.
Kristján Þór Einarsson hefur ekki hafið leik í dag en hann er á sex höggum yfir pari eftir fyrstu tvo hringina. Til þess að komast í gegnum niðurskurðinn þarf í versta falli að leika á tveimur höggum yfir pari.

