Fótbolti

Puyol ætlar sér að spila kinnbeinsbrotinn á móti Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carles Puyol skoraði í fyrstu umferð.
Carles Puyol skoraði í fyrstu umferð. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carles Puyol, fyrirliði Barcelona, er harður á því að spila áfram með liðinu þrátt fyrir að hafa kinnbeinsbrotnað í sigrinum á Osasuna í spænsku úrvalsdeildinni um helgina.

Í fyrstu var búist við því að Puyol yrði frá æfingum og keppni í einhvern tíma en kappinn var mættur á æfingu í morgun og ætlar sér greinilega ekki að missa af leiknum á móti Real Madrid á morgun.

Það má búast við því að Carles Puyol spili með grímu á móti Real Madrid á Santiago Bernabeu en það var hægra kinnbeinið sem brotnaði hjá honum. Hann þarf þó að komast í gegnum æfingarnar í dag til þess að sjá hvort að hann sé hreinlega leikfær fyrir stríðið við Real.

Barcelona vann 3-2 sigur á Real Madrid í fyrri leik spænska ofurbikarsins á Nou Camp í síðustu viku en Real er á heimavelli á morgun og nægir 1-0 eða 2-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×